Tækifærin
Selfoss leynir á sér. Bærinn hefur vaxið ört á undanförnum árum og er nú þegar orðinn svo fjölmennur að öflugt atvinnulíf og þjónusta stendur traustum fótum.
Sannkallaður framtíðarstaður
Selfoss hefur byggst upp sem miðstöð þjónustu á Suðurlandi frá því um miðja tuttugustu öldina. Þar er nú miðstöð stjórnsýslu Sveitarfélagsins Árborgar, sem einnig telur þorpin Eyrarbakka og Stokkseyri og gamla Sandvíkurhrepp. Mikil fjölgun íbúa og ferðamanna undanfarin ár hefur undirstrikað enn frekar hlutverk Selfoss sem miðstöðvar verslunar og þjónustu. Þessi þróun skilar sér í fjölbreyttum tækifærum fyrir áhugasöm fyrirtæki og framtakssama einstaklinga.
Nýtt hverfi rís
Árborg nær yfir mikið sléttlendi í Flóanum, allt frá Selfossi og niður á ströndina, frá Stokkseyri til Eyrarbakka. Möguleikar til vaxtar og uppbyggingar eru því miklir.
Unnið er hörðum höndum að nýju aðalskipulagi og að deiliskipulög tryggi framboð lóða undir íbúðir og fyrirtæki. Meðal annars mun nýtt hverfi, Björkurstykki, sunnan við Selfoss, vera tilbúið til uppbyggingar árið 2020 og er þegar verið að undirbúa að hefja þar byggingu skóla og íbúða.
Hagstætt húsnæðisverð
Það sem dregur nýjar fjölskyldur til Árborgar, í svo miklum mæli sem raun ber vitni, er góð þjónusta skóla og leikskóla og kraftmikið íþróttastarf, auk þess sem umhverfið er fallegt, friðsælt og vinalegt. Þá spillir ekki fyrir að byggingarkostnaður og húsnæðisverð er lægra en á höfuðborgarsvæðinu.
Nýr miðbær væntanlegur
Framkvæmdir við nýjan miðbæ í hjarta Selfoss standa yfir og er áætlað að þar verði fjölbreytt verslun og þjónusta tekin til starfa vorið 2021.
Húsin sem verið er að reisa í miðbænum eru eftirmynd gamalla húsa sem þekkt eru í tuttugustu aldar sögu Íslands og mun því skapast hlýleg stemming á borð við það sem við þekkjum úr gömlum miðbæjarkjörnum á norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Miðbærinn, sem liggur við fótskör gömlu Ölfusárbrúnnar mun gjörbreyta ásýnd bæjarins, fjölga störfum og auka aðdráttarafl.
Miklar samgöngubætur
Samgöngur frá Selfossi að Reykjavík verða sífellt betri og öruggari. Breikkun þjóðvegarins til Hveragerðis lýkur senn og smíði nýju Ölfusárbrúnnar er í augsýn. Stutt er í inn- og útflutningshöfn í Þorlákshöfn, sem skapar fyrirtækjum á staðnum ýmsa möguleika.
Á atvinnumarkaði Árborgar er fjöldi menntafólks sem sækir störf til Reykjavíkur og nýtir þar bæði einkabílinn og tíðar strætóferðir.
Ný brú á teikniborðinu
Ný Ölfusárbrú mun tekin í notkun innan fárra ára og við það skapast tækifæri til að byggja upp Austurveginn á Selfossi sem mikilvægan ás mannlífs, þjónustu og verslunar í nágrenni Ölfusár.
Í vestri verður nýji miðbærinn og gamla Ölfusárbrúin, en í austri verður nýja Ölfusárbrúin og sá öflugi verslunar- og þjónustukjarni sem byggst hefur upp að undanförnu við Larsenstræti.
Þekkingarsamfélag í þróun
Við Austurveg munu í framhaldinu gefast tækifæri til að útbúa aðlaðandi umhverfi og byggja upp klasa þekkingar, þjónustu og verslunar – en gera má ráð að þekkingarsamfélag á Selfossi þróist áfram í nágrenni Austurvegar, út frá þeim miðpunkti sem nú er í Fjölheimum við hlið Sundlaugar Selfoss og World Class.
Nú þegar eru verkfræðistofur, lögfræðistofur og sambærileg fyrirtæki með útibú eða höfuðstöðvar á Selfossi, en í ljósi þess að nærri 20% íbúa Selfoss sækja störf til Reykjavíkur gefast mikil tækifæri til frekari starfsemi og skrifstofureksturs við Austurveginn.