fbpx

Náttúra

Selfoss er náttúruperla sem fáir hafa gefið gaum. Gunna Stella og Aron segja fáa staði bjóða upp á viðlíka möguleika til útivistar og þau eru dugleg að nýta sér nálægð við náttúruna.

Við búum við svo mikið frelsi

Gunna Stella og Aron eru hjón sem búa í fallegu húsi við Kirkjuveg á Selfossi. Þau eiga fjögur börn á aldrinum 4-16 ára og einn hund. Þau segja það forréttindi að búa í þessari nálægð við náttúruna.

Ævintýrastaður fyrir börnin

„Hér er dásamlegt að vera. Hvort sem það er að eyða tíma saman út í garði í góða veðrinu, skreppa í göngutúra með hundinn eða fara í hjólatúra rétt fyrir utan bæinn, þá eru það ákveðin forréttindi að vera með öll þessi útivistartækifæri handan við hornið,“ segir Gunna Stella.

„Mér finnst frábært að geta farið í Gesthúsaskóg, grænt svæði sem er hér í miðjum bænum, svo við tölum ekki um Hellisskóg líka, hinum megin við ána, sem er náttúrulega alveg dásamlegt útivistarsvæði,“ segir Gunna Stella. „Þetta er algjör ævintýrastaður fyrir börnin.“

Ölfusá heillar

Ölfusá er vatnsmesta á landsins og einkennandi fyrir Selfoss á margan hátt. Til að komast að bænum er farið yfir brúna, þar sem áin heilsar með sínum hrikaleika og fegurð í bland. Aron segir heillandi að vera í bæjarstæði við svo stóra og mikla á, hún sé hluti af hinu daglega lífi. „Mér finnst áin svo ótrúlega falleg, hvenær sem er að deginum. Meðfram ánni eru svo góðir stígar og þar er alltaf fólk á röltinu,“ segir Aron.

Mikil tækifæri

Aron bendir réttilega á þau tækifæri sem felast í staðsetningu Selfoss og nálægð við náttúruna.

„Selfoss er mikilvægur staður fyrir ferðamenn og margir sem eiga hér leið hjá og sækja þjónustu. Við erum frábærlega staðsett, miðsvæðis við allar helstu náttúruperlur suðurlands. Hér liggja mikil tækifæri í ferðaþjónustu.“