fbpx

Íþróttir

Öflugt íþróttastarf er hluti af sjálfsmynd Selfyssinga. Feðgarnir Grímur og Hergeir eru þjálfari og fyrirliði Íslandsmeistara Selfoss í handbolta. Þeir segja að nýr risi sé að vakna.

Íbúar hafa öðlast nýtt sjálfstraust

Hjónin Grímur og Björk eru Selfyssingar í húð og hár og hafa búið þar alla tíð. Íþróttasvæðið hefur verið þeirra annað heimili um árabil; Grímur er þjálfari Íslandsmeistaraliðs Selfoss í handbolta og sonur þeirra Hergeir er fyrirliði liðsins.

Mikil gæði í yngri flokka starfi

Íslandsmeistaratitlinum í handboltanum síðastliðið vor var fylgt eftir með bikarmeistaratitli hjá kvennaliði Selfoss í fótbolta í sumar. Félagið er að ná eftirtektarverðum árangri í nokkrum íþróttagreinum og Grímur segir það enga tilviljun. Árangurinn er afrakstur mikillar vinnu og stefnu sem unnið hefur verið eftir síðustu ár.

„Það var farið að vinna mjög skipulega með yngri flokkana og setja miklu meiri gæði í starfið. Samvinnan við Fjölbrautaskólann hefur gengið mjög vel og þessar akademíur gefa leikmönnum- og konum tækifæri á að sinna sinni íþrótt enn betur en ella,“ segir Grímur.

Ólýsanleg stemning

Hergeir hefur persónulega reynslu af þessu fyrirkomulagi, enda var hann hluti af handboltaakademíu FSu áður þar til hann lauk stúdentsprófi. „Þetta er ofboðslega gott fyrirkomulag. Það verður til ákveðið hugarfar og metnaður og ekki bara í handboltaakademíunni. Það er mjög mikill stuðningur á milli íþrótta. Við þekkjumst öll mjög vel og styðjum vel við bakið á hvort öðru,“ segir Hergeir.

Björk segir að íbúar geti hreinlega ekki annað en hrifist með. „Svona árangur og titlar búa til mikla stemningu í bænum. Samheldnin eykst og maður finnur fyrir auknu stolti,“ segir hún. „Það var í raun og veru ólýsanleg stemning sem myndaðist í bænum og hún er eiginlega búin að haldast út sumarið,“ bætir Hergeir við.

Íþróttasvæðið er hjarta Selfoss

Það er líklega einsdæmi á Íslandi að hægt sé að finna íþróttasvæði í miðju bæjar, í göngufæri við öll hús, þar sem iðkendur á öllum aldri geta valið á milli allra vinsælustu íþróttagreina landsins.

Þau segja það að sjálfsögðu mjög þægilegt að hafa öll helstu öll íþróttamannvirkin á sama blettinum. „Mér finnst það helst hafa gefið okkur meiri tíma,“ segir Björk. „Börnin komast á allar æfingar sjálf. Þau geta hjólað eða labbað í tómstundir og íþróttir, sem mér finnst svo náttúrulega og eðlilegt. Við losnum við þetta skutl,“ segir hún.

Við viljum gera enn betur

Grímur segir að markmiðin hjá íþróttafélaginu séu skýr – að festa sig í sessi á toppnum og sýna stöðugleika. „Nú eru menn búnir að ná að vinna titla og komast á toppinn á Selfossi. Næsta skref er að gera það aftur og sýna stöðugleika. Ég held að íbúar hafi öðlast nýtt sjálfstraust með þessum titlum. Maður finnur það að það er meiri trú á kerfið og það er meiri kraftur í fólki. Þegar fólk er búið að upplifa þessa tilfinningu sem fylgir því að vinna þá vilja menn gera það aftur. Og ætla að gera það aftur.“