fbpx

Heimili

Á Selfossi er sérbýli á sama verði og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu. Njörður og Sally búa í fallegu einbýlishúsi í nýlegu hverfi. Þau eiga þrjú börn og vilja hvergi annars staðar vera.

Það eru innan við 5 mínútur í allt

Njörður og Sally Ann búa á Selfossi ásamt börnum sínum þremur, 14 ára, 11 ára og tveggja ára. Þau eru uppalin í bænum og eftir að hafa stundað háskólanám í höfuðborginni og í Danmörku um stund snéru þau aftur heim og hafa verið allar götur síðan.

Aksturinn nýtist til góðra verka

„Við höfum hér allt til alls. Helsti kosturinn við að búa á svona litlu svæði er þessar stuttu vegalengdir. Það eru innan við fimm mínútur í flest allt. Selfoss er mjög barnvænn bær. Það er rólegt að vera hérna, öruggt fyrir börnin. Húsnæðisverð er mun hagstæðara en á höfuðborgarsvæðinu en ef þú þarft eitthvað í Reykjavík, þá eru bara 40 mínútur þangað. Við gætum ekki hugsað okkur að vera annarsstaðar.“

Sally starfar sem þroskaþjálfi í Sunnulækjarskóla og tekur það hana nokkrar mínútur að ganga til vinnu. Njörður er forritari hjá Annata og keyrir til vinnu í Kópavog á hverjum morgni. „Það er ekkert mál að keyra í bæinn. Það tekur 40-45 mínútur og ég nota þennan tíma til að hugsa, hlusta á góða tónlist, hljóðbók, hlaðvarp eða taka símtöl. Þetta er alveg ótrúlega lítið vesen,“ segir Njörður.

Íþróttasvæðið er félagsmiðstöð

Börn þeirra eru mjög virk í íþróttastarfinu. Alexander, 14 ára, æfir fótbolta og Victoria Ann, 11 ára, æfir fimleika undir handleiðslu móður sinnar sem er þjálfari hjá fimleikadeild Selfoss. „Þetta er náttúrulega algjör íþróttabær,“ segir Sally. „Hér er hægt að stunda langflestar íþróttir og starfið er framúrskarandi á flestum sviðum.“

Fjölbrautaskólinn á Selfossi starfrækir akademíu í samvinnu við íþróttafélagið, þar sem hægt er að fá íþróttaiðkun metna til eininga. Afreksiðkendur í fótbolta, handbolta og körfubolta, ásamt fimleikum, hestamennsku og frjálsum íþróttum eru hluti af akademíunni. „Við erum mjög heppin að búa við þetta fyrirkomulag. Þegar börnin komast á framhaldsskólaaldur, þá vilja þau vera hér áfram,“ segir Njörður.

Íþróttasvæðið er staðsett í hjarta Selfoss, í göngufæri við nánast öll hús í bænum. „Íþróttasvæðið er eiginlega eins og félagsmiðstöð og fyrir fjölskyldu eins og okkar er það nánast eins og okkar annað heimili.“

Hlökkum til næstu ára

Njörður og Sally hafa ekki farið varhluta af uppganginum á Selfossi undanfarin ár. Þau búa sjálf í nýlegu húsi í einu af nýrri hverfum bæjarins og víða í kringum þau er verið að byggja eða leggja lokahönd á falleg sérbýli.

„Það er ekki langt síðan við byrjuðum að læsa húsinu okkar. Þótt hér séu að verða 10 þúsund íbúar þá er ennþá þessi smábæjarstemning ríkjandi. Við þekkjum ekki alla, en könnumst við flesta. Í svona umhverfi verður til ákveðin stemning, samheldnin er meiri.“

Framundan er enn frekari uppbygging, ný hverfi á teikniborðinu og framkvæmdir á nýjum miðbæ eru í gangi.

„Við erum ótrúlega spennt fyrir komandi tímum, sérstaklega miðbænum. Hér í bænum er hægt að sækja alla helstu þjónustu, fara í sund, bíó og slíkt. En að geta hjólað eða rölt niður í bæ, sest á kósý kaffihús og horft á krakkana leika sér fyrir utan. Það er það sem okkur hefur vantað. Við hlökkum mikið til.“